Umhirða húðar
Mestu máli skiptir að hreinsa húðina daglega með yfirborðshreinsi sem hentar húðgerðinni og aldri. Ryk, mengun og óhreinindi úr umhverfinu setjast á húðina og auk þess myndast fita og sviti sem nauðsynlegt er að fjarlægja. Hreinsar eru til í krem- og sápuformi og oft notaðir með vatni og því einkar hentugt að nota þá í sturtu og tilvalið að raka sig upp úr hreinsinum í leiðinni.
Eftir hreinsun er mikilvægt að nota andlitskrem og hrein húð tekur betur á móti virku efnunum sem borin eru á hana. Krem sem ætluð eru karlmönnum innihalda oft litla fitu, eru létt og gelkennd vegna þess að oftar er húð karlmanna með næga náttúrulega fitu. Tilgangur með andlitskremi er að verja húðina gegn utanaðkomandi áreiti, vera mýkjandi og viðhalda starfseminni og koma í veg fyrir ótímabæra öldrun.
Ráðlegt er að djúphreinsa húðina 1-2 svar í viku með kornakremi til að fjarlægja enn betur umfram óhreinindi og dauðar húðfrumur af yfirborðinu. Í kjölfarið ganga kremin betur inn til húðar en liggja ekki ofan á uppsöfnuðum, dauðum húðfrumum og húðin verður fersk og björt.