Menu Close

Húðin er stærsta líffæri líkamans og getur ástand hennar gefið góða vísbendingu um heilsufar og sjúkdóma. Mikilvægt er að hugsa vel um húðina og á það jafnt við um karlmenn og konur.

Húð karlmanna er eins að uppbyggingu og húð kvenna nema að ytra lagið, yfirhúðin er þynnri og innra lagið, leðurhúðin er um 20 % þykkari. Vegna þess að hin eiginlega húð er þykkari þá finnst meira af kollageni og elastíni, sem hefur með teygjanleika og styrkleika að gera,  í húð karlmanna. Þetta þýðir að fram að þrítugu fá karlmenn ekki eins djúpar hrukkur og konur og húðin þeirra helst þéttari og teygjanlegri lengur.  Karlmenn eru með stærri og virkari fitukirtla og eru því oftar með feitari, opnari húð með bóluvandamál en konur en þeir geta vissulega verið með hvaða húðgerð sem er.

Séreinkenni karlmanna er svo auðvitað skeggvöxtur í andliti og vegna karlhormónsins testósteróns fá þeir þykkari, grófari hár og vegna skeggrótar virðist húð þeirra oft grófari í andlitinu.

Vegna ofantalinna séreinkenna í húð karlmanna er nauðsynlegt að velja vörur sem eru með sérvalin innihaldsefni og sérstaklega eru þróaðar með þarfir þeirra í huga.

Mestu máli skiptir að hreinsa húðina daglega með yfirborðshreinsi sem hentar húðgerðinni og aldri. Ryk, mengun og óhreinindi úr umhverfinu setjast á húðina og auk þess myndast fita og sviti sem nauðsynlegt er að fjarlægja. Hreinsar eru til í krem- og sápuformi og oft notaðir með vatni og því einkar hentugt að nota þá í sturtu og tilvalið að raka sig upp úr hreinsinum í leiðinni.

Eftir hreinsun er mikilvægt að nota andlitskrem og hrein húð tekur betur á móti virku efnunum sem borin eru á hana.  Krem sem ætluð eru karlmönnum innihalda oft litla fitu, eru létt og gelkennd vegna þess að oftar er húð karlmanna með næga náttúrulega fitu. Tilgangur með andlitskremi er að verja húðina gegn utanaðkomandi áreiti, vera mýkjandi og viðhalda starfseminni og koma í veg fyrir ótímabæra öldrun.

Ráðlegt er að djúphreinsa húðina 1-2 svar í viku með kornakremi til að fjarlægja enn betur umfram óhreinindi og dauðar húðfrumur af yfirborðinu. Í kjölfarið ganga kremin betur inn til húðar en liggja ekki ofan á uppsöfnuðum, dauðum húðfrumum og húðin verður fersk og björt.

Karlmaður rakar sig að meðaltali um það bil 20.000 sinnum yfir ævina sem eru samtals um fimm mánuðir. Húðumhirða karlmanna snýst að stórum hluta um rakstur og margir raka sig jafnvel daglega. Rakstur er mikið áreiti fyrir húðina og getur valdið viðkvæmni,  rakstursbólum og þurrki og þurr húð eldist mun fyrr. Þrátt fyrir síendurtekinn rakstur er ekki sjálfgefið að allir viti hvaða aðferð sé best að beita til að koma í veg fyrir óþægindi. Ýmis góð ráð eru til að gera raksturinn auðveldari og  koma í veg fyrir þurrk og viðkvæmni.

Mikilvægt er að velja vönduð og góð áhöld við raksturinn og vörur sem innihalda sérvalin efni og eru án alkóhóls eða efna sem loka húðinni og hafa þurrkandi áhrif.

Mælt er með að nota vandaða raksköfu með heilu, beittu blaði og skipta reglulega eða eftir 4-5 skipti. Skörðótt og bitlaust blað er helsta ástæðan fyrir skurðum og óþægilegum rakstri.

Rakstursburstar eru margskonar og mjög misjafnir að gæðum en greifingjahár henta best og eru langvinsælust.

Huga þarf vel að hreinlæti og hreinsa burstann og sköfuna eftir hverja notkun. Burstann er best að skola vel, hrista mesta vatnið úr og geyma hann með hárin hangandi niður og láta þorna. Rakur bursti  með rakstursefni getur verið gróðrastía fyrir bakteríur.

Grunnurinn að góðum rakstri er að undirbúa húðina vel og best að hafa hana heita til að mýkja skeggið og opna húðholur. Áður en raksturskremið er sett á húðina er gott að bera nokkra dropa af  rakstursolíu (pre-shave oil) sem myndar vörn á milli húðar og rakblaðs til að fá mýkri og betri rakstur. Olían kemur í veg fyrir ertingu eftir rakstur og hefur mýkjandi áhrif á húð og skegg.

Raksturskremið er hægt að bera á með fingrum en rakstursburstinn mýkir og örvar húðina og ýfir betur skegghárin og þannig verður raksturinn auðveldari.

 

Ávallt skal raka í sömu átt og skegghárin vaxa nema ef hárin eru einstaklega gróf þá getur verið nauðsynlegt að raka á móti hárvexti eftir að búið er að raka í sömu átt. Algengt er að karlmenn fái inngróin hár og helsta ástæðan sú að rakað er á móti skeggvextinum.

 

Eftir rakstur er gott ráð að setja kalt vatn á húðina til að draga saman húðholur og þá bera á krem eftir rakstur (Aftershave balm) sem hefur kælandi, sefandi, sótthreinsandi og mýkjandi áhrif.