Húðin er stærsta líffæri líkamans og getur ástand hennar gefið góða vísbendingu um heilsufar og sjúkdóma. Mikilvægt er að hugsa vel um húðina og á það jafnt við um karlmenn og konur.
Húð karlmanna er eins að uppbyggingu og húð kvenna nema að ytra lagið, yfirhúðin er þynnri og innra lagið, leðurhúðin er um 20 % þykkari. Vegna þess að hin eiginlega húð er þykkari þá finnst meira af kollageni og elastíni, sem hefur með teygjanleika og styrkleika að gera, í húð karlmanna. Þetta þýðir að fram að þrítugu fá karlmenn ekki eins djúpar hrukkur og konur og húðin þeirra helst þéttari og teygjanlegri lengur. Karlmenn eru með stærri og virkari fitukirtla og eru því oftar með feitari, opnari húð með bóluvandamál en konur en þeir geta vissulega verið með hvaða húðgerð sem er.
Séreinkenni karlmanna er svo auðvitað skeggvöxtur í andliti og vegna karlhormónsins testósteróns fá þeir þykkari, grófari hár og vegna skeggrótar virðist húð þeirra oft grófari í andlitinu.
Vegna ofantalinna séreinkenna í húð karlmanna er nauðsynlegt að velja vörur sem eru með sérvalin innihaldsefni og sérstaklega eru þróaðar með þarfir þeirra í huga.